Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 218 . mál.


Nd.

441. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 67/1971, ásamt síðari breytingum, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1989.

Frá 2. minni hl. heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Frumvarp það, sem hér er til afgreiðslu, var upphaflega lagt fram með það að meginmarkmiði að ná fram sparnaði í útgjöldum ríkisins vegna tannlæknakostnaðar eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Á fund nefndanna komu fulltrúar frá Tannlæknafélagi Íslands, Tannréttingafélagi Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Að fengnum ábendingum frá þeim telur 2. minni hl. að ná megi markmiðum frumvarpsins betur á annan hátt en lagður er til þar. Nefndin hefði þurft að fá tækifæri til að taka afstöðu til þessara hugmynda en til þess gafst ekki tími. Jafnframt komu fram efasemdir fulltrúa Tannlæknafélags Íslands og Tannréttingafélags Íslands um að frumvarpið mundi leiða til sparnaðar. Tölur þær, sem lagðar eru til grundvallar í áætlun um sparnað samkvæmt frumvarpinu, hafa og verið dregnar í efa í umræðum innan nefndarinnar. Annar minni hl. telur að margt hefði mátt færa til betri vegar með nánari umfjöllun innan nefndarinnar.
    Annar minni hl. telur þá flokkun tannréttinga, sem lögð er til í frumvarpinu, mjög til bóta.
    Breytingartillögur þær, sem fram komu í lok nefndarstarfa, eru að mörgu leyti óviðkomandi efni upphaflega frumvarpsins. Þær eru byggðar á samkomulagi þeirra aðila sem málið varða. Annar minni hl. mun styðja þær en að öðru leyti sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þeirra hnökra á afgreiðslu málsins og flýtis sem að framan er lýst.

Alþingi, 20. des. 1989.



Anna Ólafsdóttir Björnsson,


fundaskr.